Rauris dalurinn
Rauris dalurinn er 30 km langur og oft kallaður “Gulldalur Alpanna“. Í dalnum hefur tekist að varðveita þjóðlegar hefðir og þar er stórkostlegt landslag með óspilltri náttúru og fjallasýn enda er dalurinn hluti af stærsta þjóðgarði Austurríkis, Hohe Tauern National Park.
Afþreying
Rauris dalur er fjölskylduvænn staður og þar eru ýmsar afþreyingar í boði. Meðal annars er hægt að fara í fjallgöngur, hjólaferðir, leita að gulli, klifra í gljúfri, fara í vatnaleiðangra, skíða á jökli eða fylgjast með konungi fuglanna.
Fjallaklifur í gljúfri
Fremst í Rauris dalnum er stórkostlegt gljúfur, Kitzlochklamm, með göngu-og klifurleiðum. Hægt er að ganga upp eða niður gljúfrið eftir göngustíg og á pöllum. Á nokkrum stöðum í gljúfrinu eru fjölbreyttar klifurleiðir, sem henta allri fjölskyldunni. Hægt er að leigja klifurbúnað.
Göngu- og hjólaleiðir
Í fjöllunum umhverfis dalinn eru um 30 fjallaskálar og fjöldi gönguleiða milli þeirra. Einnig eru nokkrar hjólaleiðir, inn dalinn og upp í hlíðarnar. Hægt er að leigja fjallahjól og rafmagnshjól og víða í dalnum eru hleðslustöðvar fyrir rafmagnshjól.
Fyrir börnin
Í Rauris og nágrenni er ýmis konar afþreying fyrir fjölskyldufólk. Þar er hægt að leita að gulli, fara í ratleik, heimsækja leiksvæði, minigolf, sundlaug, fara upp með kláf eða heimsækja dýragarð í næsta dal.
Hohe Tauern þjóðgarðurinn
Rauris er í Hohe Tauern þjóðgarðinum sem er stærsti þjóðgarður Austurríkis. Hann var stofnaður árið 1980 og var fyrsti þjóðgarður Austurríkis, 1,856 km² að stærð.